Rannsókn um stöðu kvenna í sjávarútvegi

Eitt af fyrstu stefnumálum sem félagið setti fram í upphafi var að greina aðkomu kvenna að sjávarútvegi. Þar sem litlar tölulegar upplýsingar voru til ákváðu samtökin að láta gera rannsókn með það að leiðarljósi að kortleggja tækifæri til vaxtar fyrir sjávarútveg með aukinni þátttöku kvenna innan greinarinnar. Gallup og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri sáu um framkvæmdina. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Íslandsbanki og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi styrktu rannsóknina.

Send var vefkönnun til 445 fyrirtækja og stofnana sem tengjast sjávarútvegi. Meðal þess sem könnunin leiddi í ljós var að meðal æðstu stjórnenda og framkvæmdastjóra voru mun fleiri karlar en konur en hlutfallið er jafnara þegar kemur að millistjórnendum. Í þriðjungi fyrirtækja var engin koma meðal eigenda og í einungis 14% fyrirtækja áttu konur 51% hlut eða meira.

Nokkrar spurningar lutu að viðhorfum til kvenna í sjávarútvegi og voru þær í formi fullyrðinga sem taka átti afstöðu til. Spurt var hvort karlar byggju yfir meiri þekkingu en konur og voru 42% því ósammála en 20% sammála. Einnig var spurt hvort karlar byggju yfir meiri hæfni en konur og því voru fleiri ósammála (53%) og færri sammála (5%). Rúmur þriðjungur svarenda taldi að markvisst væri unnið að því að efla þekkingu og hæfni kvenna innan sjávarútvegsins. Kynjamunur var á svörum varðandi jafnréttismál, þar sem konur voru síður líklegar en karlar til að telja að konur og karla fá sömu tækifæri til starfsframa og að áhersla væri lögð á jafnrétti.

Skýrslan í heild sinni: Staða kvenna í sjávarútvegi frá sjónarhorni fyrirtækja og stofnana.