Hagsæld og hafið – Opinn fundur KIS og Íslandsbanka

Upptöku af fundinum má nálgast hér

KIS kynnti niðurstöður rannsóknar um stöðu kvenna í greininni á opnum fundi í Íslandsbanka í fyrradag. Húsfylli var á staðnum og var virkilega ánægulegt að sjá svona mörg andlit samankomin til þess að hlýða á fundinn, en síðustu tvö ár hefur félagið ekki getað staðið fyrir mörgum viðburðum í persónu en hefur stuðst mikið við tæknina eins og aðrir í gegnum heimsfaraldurinn. Viðburðinum var að sjálfssögðu einnig streymt og hér fyrir ofan er hlekkur á upptökuna.

Dagskráin var vegleg og fengum við marga góða gesti til þess að vera með fjölbreytt erindi. Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flutti opnunarávarp þar sem að hún ítrekaði mikilvægi fjölbreytileikans í greininni og mikilvægi þess að tryggja aðkomu allra kynja að þessari mikilvægu atvinnugrein. Agnes Guðmundsdóttir, formaður KIS, kynnti helstu samanburða niðurstöður rannsóknarinnar, Jón Bjarki, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, fór yfir efnahagshorfur og tækifærin í greininni og Árni Oddur, forstjóri Marels, ræddi um mikilvægi fjölbreytileikans í víðu samhengi í verðmætasköpun fyrirtækisins og tækifæri til framtíðar í sölu og vinnslu á íslenskum fiski fyrir stækkandi millistéttar í heiminum. Að lokum kynnti Kjartan Smári nýjan fjárfestingarsjóð Íslandssjóða en honum er meðal annars ætlað að styðja við vöxt í víðu samhengi í sjávarútvegi.

Fjörugar pallborðs umræður um konur, Verðbúðina, fiskinn í sjónum og pólitíkusa sem flækjast allof mikið fyrir, fylgdu svo í kjölfarið þar sem Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi, Elín Ósk Pétursdóttir framkvæmdarstjóri Marine Collagen, Ásta Dís Óladóttir dósent við Háskóla Íslands og Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims skiptust á skoðunum undir digri stjórn Eddu Hermansdóttur samskiptastjóra Íslandsbanka.