KIS býður í fyrsta sinn upp á lærimeistara prógram í samstarfi við Háskólann á Akureyri

Frá vinstri: Kristianna Mjöll, Særún Anna og Áslaug Eir
Frá vinstri: Skúli Kristinn Skúlason, Kristianna Mjöll Arnardóttir, Særún Anna Brynjarsdóttir og Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir í heimsókn í matvæla ráðuneytinu

Mentor prógram KIS og Háskólans á Akureyri

Í vor fór af stað í fyrsta sinn lærimeistara prógram KIS í samstarfi við Háskólann á Akureyri og nemendafélagið Stafnbúa. Markmið samstarfsins er að tengja saman nemanda sem stundar nám við sjávarútvegstengd fræði við reynslumikla konu úr félaginu, sem aðstoðar nemandann með ákveðin verkefni, hvetur áfram og styður við framgang hans innan greinarinnar.

Þegar samstarfið fór af stað var fyrirkomulagið opið og nemandanum og lærimeistara frjálst að velja viðfangsefni en lagt var upp með að þær myndu hittast eða tala saman a.m.k. einu sinni til tvisvar í mánuði yfir þriggja mánaða tímabil. 

Í ár tóku fjórir nemendur þátt og þar á meðal þær Kristianna Mjöll og Særún Anna, nemendur við sjávarútvegsfræði í HA. Þær unnu með  öflugum konum úr félaginu, þeim Ásdísi Pálsdóttur verkefnastjóra hjá Fisktækniskólanum og Áslaugu Eir Hólmgeirsdóttur skrifstofustjóra hjá matvæla ráðuneytinu.

Þær Særún og Kristianna, sem eru búsettar á Akureyri, gerðu sér ferð til Reykjavíkur til að hitta lærimeistarana sína í persónu. Í ferðinni heimsóttu þær einnig Sjávarklasann á degi Blárrar nýsköpunar og kynntu sér þau fjölmörgu fyrirtæki sem hafa komið fram með nýjungar sem stuðla að hreinna umhverfi hafsins eða betri nýtingu auðlinda þess, og hittu þar fyrir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra. Brim bauð þeim svo í kynnisferð um vinnsluna hjá þeim, og að lokum fóru þær á kynningu hjá matvæla ráðuneytinu.

Við ræddum betur við þær Særúnu Önnu og Kristiönnu Mjöll og spurðum þær hvað þær hefðu lært og tekið út úr þessu samstarfi:

Særún Anna

„Ég er að útskrifast núna í júní og stefni á vinnumarkaðinn áður en ég fer í áframhaldandi nám. Ég er ekki viss hvað mig langar að gera innan sjávarútvegsins og var markmið mitt með þátttökunni í KIS að fá betri innsýn á þeim möguleikum sem eru í boði, segir Særún“

„Lokaritgerðin mín fjallar um rafrænt eftirlit í fiskveiðiflota Íslands og hef mikinn áhuga á stjórnunarstörfum og stefni á framhaldsnám tengt stjórnun. Vegna þess var ég pöruð með Áslaugu Eir sem var minn lærimeistari en hún starfar sem skrifstofustjóri sjávarútvegsmála hjá matvælaráðuneytinu og starfaði á undan hjá Fiskistofu. Áslaug fundaði með mér vikulega, á fundunum svaraði hún þeim spurningum sem ég hafði ásamt því að veita mér ráð hvernig best væri að koma sér inn á vinnumarkaðinn eftir útskrift. Samstarfið við Áslaugu gekk ótrúlega vel og bauð hún mér að lokum í heimsókn í ráðuneytið sem var mjög áhugavert og skemmtilegt. Það var mjög dýrmætt að fá að taka þátt í þessu verkefni og fá tækifæri til þess að tengjast Áslaugu og mikil hvatning fyrir unga konu að sjá farsæla konu í stjórnunarstarfi standa sig svona vel.“ 

Kristianna Mjöll

„Ég ákvað að taka þátt í lærimeistara prógramminu vegna þess að mér var bent á það af vinkonu minni sem var búin að skrá sig og mér fannst þetta tilvalin leið til þess að reyna að búa mér til tengslanet og maður lærir svo ótrúlega margt af fólki sem hefur unnið í þessum iðnaði sem getur miðlað þekkingu sinni áfram“ segir Kristianna.

„Þátttakan hefur ekki beint nýst í náminu sjálfu en við byrjuðum frekar seint á skólaárinu. Hins vegar var ég ekki viss hvar áhugi minn í greininni lá og hvað ég vildi taka mér fyrir hendur eftir útskrift úr sjávarútvegsfræðinni. Lærimeistarinn minn nýtti sér tenglsanetið sitt til þess að koma mér inn í heimsóknir í mörg fyrirtæki til þess að reyna að aðstoða mig í að finna hvar mitt áhugasvið liggur. Þetta hefur gagnast mér mikið og finnst mér ég vera töluvert nær því að finna hvað það er sem ég væri til í að gera í framtíðinni og mæli mjög mikið með þessu prógrammi upp á það að gera að efla tengslanetið, fræðast og finna hvað það er sem maður vill gera eftir nám.“

Tækifæri í sjávarútveginum

Sjávarútvegurinn er fjölbreytt og skemmtileg grein sem býður upp á fjölmörg tækifæri sem mun á næstu árum þurfa að fá til liðs við sig vel menntaða og öfluga einstaklinga. Auka þarf fjölbreytileika í greininni og þá sérstaklega fjölga konum, en það er okkar allra hagur að nýta kraft og hugmyndir allra í samfélaginu og stuðla þannig að auknu verðmæti greinarinnar. KIS stefnir á að bjóða nemendum HA aftur að taka þátt næsta haust með svipuðu sniði.

Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í ár, félagskonum KIS, nemendum HA og fyrirtækjunum sem tóku á móti þeim – kærlega fyrir ánægjulegt og lærdómsríkt samstarf.