Aðalfundur Kvenna í sjávarútvegi: stærra félag en nokkru sinni fyrr, fullskipuð stjórn og ný deild stofnuð

Aðalfundur Kvenna í sjávarútvegi (KIS) var haldinn í höfuðstöðvum Íslandsbanka á dögunum þar sem ný stjórn var kjörin fyrir starfsárið 2025 / 2026.

Félagið telur nú um 350 félagskonur og hefur á undanförnum árum vaxið jafnt og þétt. Á síðustu fimm árum hefur félagatal vaxið um rúm 20% sem er glæsilegur vöxtur sem endurspeglar aukinn áhuga og áhrif kvenna í sjávarútvegi og tengdum greinum. Í fyrsta sinn er stjórn félagsins fullskipuð, 10 konur í 10 sætum, sem sýnir styrk, fjölbreytni og metnað innan félagsins.

Í stjórn eru þær Tinna Gilbertsdóttir hjá VÍS (stjórnarformaður), Fanney Björk Friðriksdóttir hjá Brimi, Helena Sandra Antonsdóttir hjá Einhamar Seafood, Silja Baldvinsdóttir hjá Arnarlaxi, Erla Tryggvadóttir hjá IcelandPet, Mariam Laperashvili hjá Wisefish, Anna Soffía Víkingsdóttir hjá Haustaki, Linda Ósk Kjartansdóttir hjá Útgerðarfélaginu Ganti, Svana Bjarnadóttir hjá Íslandsbanka og Ingveldur Ásta Björnsdóttir (varaformaður) stjórnarmaður hjá Odda.

Tinna Gilbertsdóttir var áfram kjörin formaður stjórnar og segir mikla tilhlökkun fram undan:

„Við eigum spennandi ár framundan með fjölbreyttri dagskrá og nýjum verkefnum. Meðal annars munum við vinna að okkar þriðju rannsókn við greiningu á stöðu kvenna í sjávarútvegi í samstarfi við Háskóla Íslands, auk viðburða og fræðslu fyrir félagskonur.“

Auk kosningar á nýrri stjórn var farið yfir starfsemi síðasta starfsárs, ársreikningur lagður fram til samþykktar, félagsgjöld ákvörðuð og umræður um áherslur næsta starfsárs. Samþykkt var að starfrækja deild sem ber heitið  “Konur í eldi” innan félagsins en hlutverk hennar er einkum að sinna fræðslu á sviði eldis.

Markmið KIS er að efla tengslanet kvenna, miðla fróðleik sem nýtist í starfi og auka sýnileika og áhrif kvenna innan sjávarútvegs. Félagið vinnur jafnframt að því að stuðla að jafnrétti og faglegu jafnvægi innan greinarinnar. Allar konur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum eru velkomnar í félagið.

Ný stjórn Kvenna í sjávarútvegi hlakkar til komandi starfsárs og þakkar um leið fráfarandi stjórnarmeðlimum Ragnheiði Eyjólfsdóttur, Rósu Júlíu Steinþórsdóttur og Unni Svölu Vilhjálmsdóttur fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.